Árshátíð og Gufuskálar

Sæll lesandi, ég ætla að segja þér frá hvað ég var að bralla seinustu viku, allavega fimmtudags til sunnudags.

Þemadagar FSN (Fjölbrautaskóla Snæfellinga) voru á fimmtudag og föstudag. Hægt var að skrá sig á ýmsar stöðvar svo sem dans, stomp, prjónakaffi, fatasöfnun, jóga, pönnukökubakstur, horfa á gamlar kvikmyndir, hellaskoðun og sitthvað fleira.

Ég fór í stompið í fyrra og var í því báða dagana svo ég ákvað að breyta aðeins til og skráði mig í fleiri stöðvar en ég gat farið á. En ég byrjaði í stompinu. Sá sem sá um það hét Jón Geir eða eitthvað og er trommarinn í Ampop. Eftir hádegi hafði ég hins vegar ákveðið að fara í hellaskoðunina sem Valdimar jarðfræðikennari hafði yfirumsjón með.

Við fórum með rútunni að purkhólum og fundum einhvern helli sem heitir Hólahellir minnir mig. Leiðsögumaðurinn Ægir Þór fylgdi okkur um hellirinn sem var nokkuð stærri en ég bjóst við og vissi ekki að það væru svona stórir hellar hér á Nesinu. En þetta var rosalega skemmtilegt og ég er ennþá með hrufluð hné eftir að ég og Saga fengum þá hugmynd að skríða um í gegnum litla holu í hellinum, frábært það. En Valdimar bauð upp á Ópal og allir voru með hjálma.

Við vorum aðeins á eftir áætlun og vorum ekki komin til baka í FSN fyrr en kl 16, en þess má geta að þessi rúta átti að fara með aðra skólakrakka út í Hólm kl 15:30, svo þau fengu að hanga aðeins lengur upp í skóla að skemmta sér.

Föstudagurinn var einnig skemmtilegur, en ég byrjaði á því að ætla mér að sofa hálftíma lengur en venjulega en það breyttist þegar svörtum bimma var lagt í innkeyrsluna og byrjaði að flauta.
Þá kom ég hress upp í skóla og gekk í hringi þar til ég endaði í fiskabúrinu og horfði þar á tvo nýjustu þættina af How I Met Your Mother.

Um hálfellefu var svo spurningakeppni milli nemenda og kennara. Í kennaraliðinu voru Marvin enskukennari og fyrrum gettu betur keppandi, Hrafnhildur félagsfræðikennari og Jakob heimspeki og lífsleiknikennari. Í liði nemenda voru ég, Birgir Pétursson og Addi Copperfield, en Brynja Aud guggnaði á seinustu stundu en Addi var ólmur í að komast í liðið.

Keppnin endaði þannig Nemendur 27 - Kennarar 26, veit ekki alveg hvað mér finnst um það en auðvitað gaman að vinna, og þess má geta að Tommi Freyr samdi spurningarnar. Eftir spurningakeppnina var Gólið haldið, en það er innanhúss-söngkeppni FSN þar sem sigurvegarinn fer og keppir fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri í apríl.

Þrjú atriði voru í Gólinu. Jón Haukur, Kristján Sigurður og Nonni Bjarna spiluðu Apologize, Una Hlín söng frumsamið lag og undir spiluðu Alex Maron... og einhverjir fleiri Vestfirðingar sem ég man ekki alveg nöfnin á... og svo var Svanur Fannar sem söng og undir spilaði upptaka þar sem hann spilaði á allt.
Það var svo hljómsveitin frá Vestfjörðum sem sigraði. Ú, og ekki má gleyma því að stomp-hópurinn var með atriði á undan sjálfri keppninni. Svo voru grillaðar pylsur og Marvin og Hilmar buðu upp á soja-pylsur fyrir forvitna.

Ég er ábyggilega með nóg efni í svona 5 blogg en hér kemur seinni helmingurinn.

Eftir skólann skutluðu Sæbjörg og Sessa mér heim en Sæbjörg var ólm í að sjá í hverju ég ætlaði á árshátíðina um kvöldið. Ég sýndi henni líka prinsessukjólinn sem Marta fékk lánaðan frá Huldu systur en Sæbjörg fékk bara sjokk við að sjá hvað var óhreint í herberginu hennar, svo sýndi Sæbjörg Sessu þjarkinn minn (sem er gat á svo hann er ljótur og loftlaus). Við spjölluðum eitthvað en þær fóru svo heim um þrjú og ég fór í sturtu. Ég klæddi mig svo í sparifötin og fór að spila Modern Warfare 2, ég þarf að æfa mig í honum en þetta er mergjaður leikur. Fór samt í millitíðinni til Elínar og Sonju að reyna að fá ráðleggingar hvað ég ætti að gera við hárið á mér.

Sæbjörg og Sessa voru eitthvað seinar úr Hólminum en við vorum mættar rúmlega 19:00 í Klif í Ólafsvík. Og þar sem Alexandra var ekki nógu ákveðin fengum við ekki sæti með vinum okkar en við fundum ágætt borð hjá Steinari Darra og Unni.
Ég nenni ekki að fara í gegnum alla árshátíðina en ég segi að hún var alveg sæmileg og ég var kosinn Námsmaður FSN og Marta systir var Hlátur FSN.

Ballið byrjaði svo um miðnætti og Buff spiluðu og ég skemmti mér allavega mjög vel. Það var líka "Edrú-pottur" í gangi og eina sem þurfti að gera til að komast í hann var að blása í áfengismælinn, án þess að vera búinn að drekka, og ég held að sjaldan hafi edrúprósentan verið jafn há á balli.

Ég fékk svo far með Elínu, Steinunni, Hinrik og Bríet heim og var farin að sofa rúmlega þrjú, en ballið var búið eitthvað fyrir þrjú.

Ég svaf yfir mig og vaknaði klukkan hálfníu um morguninn en ég, Marta, Sonja og Andri vorum að fara á fjallamennskunámskeið á Gufuskálum sem byrjaði klukkan 9. Við vorum mætt þangað 09:35, ekki svo slæmt...

Þá voru einhverjir gaurar með fyrirlestur til hádegis en þá fórum við upp á jökul, eða eins langt og við komumst í grenjandi rigningu og roki. Við byrjuðum á að "síga" eftir að hafa fest siglínur í steinhnullunga, svo fórum við að renna okkur niður snjóbrekku og stöðva okkur með ísexi og svo fórum við að skoða hvernig hægt er að tryggja sig í snjó. Og ég held að það hafi ekki verið einn þurr staður á mér þegar við komum heim. En ég skellti mér bara í sturtu og ætlaði síðan að fara að horfa á Stargate Atlantis, en ég steinsofnaði yfir því og svaf til níu um kvöldið, náði restinni af Gettu betur og fékk ís.

Við mættum á réttum tíma klukkan 9 á sunnudeginum, en ég var alveg að sofna í fyrirlestrinum en við fórum loksins út. Í dag var allavega ekki rigning og við komumst töluvert hærra í jökulinn en hitinn var -7°C. Við gerðum heldur lítið fannst mér miðað við hvað við vorum lengi þarna en við lærðum svona ágætlega á ýlurnar og um snjólög. Það var samt mjög gaman og maður ætti bara að finna sér fleiri svona námskeið. Á leiðinni heim rúntuðum við aðeins í Ólafsvík og dissuðum hana áður en við keyrðum heim í Grundó. Og já, alveg rétt, ég keyrði víst á máf á leiðinni á Gufuskála um morguninn og öskraði víst eitthvað svakalega, spyrjið Mörtu, Sonju eða Andra út í þetta ef þið viljið vita meira.

Þetta var rosalega skemmtileg og fræðandi helgi en ég er ekki alveg viss hvort hún hafi toppað fyrstu helgina á árinu þar sem við fórum í nýársútilegu Kópa í Þverárdal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband